Khaleeji-hópdans

Skrifað 5. október 2003, kl. 04:25

Þessi dansstíll er ofboðslega ólíkur öllum þeim stílum sem við höfum lært hingað til. Mér skilst að danstegundin sé ættuð frá nágrenni Íraks.

Megin áherslur danssins eru gífurleg dansgleði, það að nota Khaleeji-kjólinn sem maður dansar dansinn í og sveifla hárinu, svo eru ýmis handatákn notuð.

Þetta er hópdans, það gæti orðið ruglingslegt að útskýra hlutverk hvers og eins í dansinum, ég ætla að lýsa þeim skrefum sem ég geri og reyni að lýsa því gróflega sem ég veit að er að gerast hjá öðrum dönsurum á sama tíma.

Áður en ég byrja verð ég að útskýra muninn á því sem ég kalla Khaleeji-spor 1 og Khaleeji-spor 2, þó ég viti ekki hvort ég geti gert mig almennilega skiljanlega með þetta á prenti.
Spor 1 er þannig að annar fóturinn stígur áfram og þunginn fer allur á hann, en hinn fóturinn verður eftir þaðan sem skrefið var tekið, táin á þeim fæti er í gólfinu og rétt út hnénu, þannig að rassinn fer út í loftið. Skrefið er oftast notað í þessum dansi þannig að það er gengið áfram með sama fót frammi og áttin sem maður er að fara í.
Spor 2 er svipað hinu, en það er smærra og hraðara spor, maður skiptir um fót sama í hvaða átt maður fer og þunginn færist fram og tilbaka í sporinu. Segjum að maður stígi fyrst fram með hægri, þá verður vinstri eftir, alveg beinn þannig að rassinn fari afturábak, svo færist þunginn aftur á vinsti og svo fram á hægri aftur ... svo er skipt um fót. (ég vona að þetta skiljist)

  1. við byrjum á því að snúa allar baki í áhorfendur, og bíðum eftir að heyra okkar hint um að setja vinstra ermagatið á kjólnum yfir höfuðið og halda kjólnum út til vinstri, svo bíðum við eftir því að eiga að snúa okkur að áhorfendum,
    síðan tökum við kjólinn af höfðinu allar saman, beygjum okkur niður, tökum í kjólinn í sirka hnésídd og höldum í hann þar ennþá þegar við höfum rétt úr okkur aftur
  2. við sem erum staðsettar hægra megin við miðju, göngum 4 spor með Khaleeji-spori 1 með hægri til hægri og svo 4 tilbaka með vinstri
  3. næst göngum við 4 krossskref til hægri með kjólinn strekktan á milli fingranna fyrir andlitinu þannig að bara augun sjást og hreyfum kjólinn til hliðanna á meðan og svo 4 skref tilbaka til vinstri
  4. svo tyllum við hægri fæti út til hliðar og hreyfum kjólinn í tvo litla hringi framávið
    gerum það sama til vinstri
    aftur til hægri
    og aftur til vinstri
    svo sný ég baki í áhorfendur og geri allt þetta spor aftur
    endurtaka svo allt í þessum lið aftur, bæði fram að áhorfendum og frá þeim
  5. snúa fram, kuðla kjólinn upp við mjaðmirnar og gera einskonar salsa-hreyfingar, tippla, sparka pínulítið með hægri, tippla, sparka með vinstri, tippla, sparka með hægri og tippla og sparka með vinstri
    snúa til hægri, tippla, sparka, tippla, sparka, tippla, sparka, tippla, sparka
    snúa aftur, tippla, sparka, tippla, sparka, tippla, sparka, tippla, sparka
    snúa til vinstri, tippla, sparka, tippla, sparka, tippla, sparka, tippla, sparka
  6. ganga 8 skref til hægri með kjólinn strekktan á milli fingranna fyrir andlitinu þannig að bara augun sjást og hreyfa hann til hliðanna
  7. hoppa 4 sinnum til vinstri með vinstri handlegg út til hliðar,
    hoppa 4 sinnum til hægri með hægri handlegg út til hliðar
  8. tylla hægri tá fram, standa kjurr með fæturnar, halda í kjólinn og sveigja efri búkinn lítillega fram/aftur/fram/aftur með axlashimi á meðan
  9. snerta vinstri öxl með hægri handarþófa (ekki fingrum), snerta hægri öxl með vinstri handarþófa, endurtaka
  10. snerta innanverðan hægri framhandlegg með vinstri handarþófa (ekki fingrum), snerta vinstri framhandlegg með hægri handarþófa, endurtaka
  11. snerta enni með handarbaki, handarþófa, handarbaki, handarþófa og hreyfa höfuð um og horfa á hinar stelpurnar á meðan
  12. færa axlir til hægri/vinstri/hægri/vinstri
  13. koma sér í hring með Khaleeji-spori 2
  14. ganga í rangsælum hring 8 með spori 2
  15. halda áfram að ganga með spori 2 í rangsælum hring, en sveifla hárinu með sporunum til hægri og vinstri til skiptis (byrja að sveifla úr hringnum)
  16. koma sér á sinn stað með spori 2, í línur sitthvorum megin á sviðinu, og krjúpa, til að fylgjast með síðhærðustu stúlkunum sveifla hárinu, við hinar fögnum á meðan með því að dansa krjúpandi með kjólinn strekktan á milli fingranna eða fagnandi með aðra hendina beint uppí loftið og snúa hendinni hratt
  17. 8 taktar fara í að standa upp aftur, dillandi, með kjólinn strekktan á milli fingranna
  18. aðrir 8 taktar fara í að dilla sér eins á staðnum eftir að við erum staðnar upp
  19. göngum 8 spor 2 til að mynda aftur hring
  20. önnur hver stúlka í hópnum snýr sér við að næstu stúlku í hringnum og sveifla hárinu báðar til vinstri/hægri/vinstri/hægri að hvorri annarri
  21. svo lyfta þær handleggjunum upp þannig að þeir snúi báðir lárétt, annar aðeins ofar en hinn, í höfuðhæð með bil á milli svo hægt sé að kíkja á milli þeirra
    hreyfa höfuð 8 sinnum til hliðanna
    skipta um hendur (sú sem var ofar fer niður og öfugt), og hreyfa höfuðið 8 sinnum til hliðanna
  22. endurtaka lið 21
  23. svo stendur önnurhver stúlka í hringnum með kjólinn fyrir andlitinu fyrir neðan augu og hinar labba í sikksakki á milli þeirra allan hringinn
  24. allur hópurinn myndar þéttan hring sem allar snúa útúr og ganga heilan hring til hægri
  25. því næst snýr önnur hver inn í hringinn, svo sveifla þær allar hárinu fram fjórum sinnum, snúa sér við og sveifla aftur hárinu fram fjórum sinnum, en í síðasta skiptið þegar hárið er niðri, fer handleggur undir hárið og við rísum upp rólega
  26. með Khaleeji-spori 2 komum við okkur fyrir á sama stað og við byrjuðum á í dansinum
  27. endurtaka lið 2
  28. endurtaka lið 3
  29. endurtaka lið 4
  30. endurtaka lið 9 (x2)
  31. endurtaka lið 10 (x2)
  32. endurtaka lið 11 (x3)
  33. með Khaleeji spori 2 dönsum við okkur í hring og höldum svo áfram í einni línu útaf sviðinu með aðra hendina titrandi beint uppí loftið (kveðjuspor)

 

Flakk um vefsvæðið



 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)