Magadansinn í fimmta gír aftur!
Jæja, núna viku eftir afmælissýninguna, höfum við hvílst nóg til að hefjast handa við að undirbúa annasama tíma að áramótum loknum, þar ber hæst að haldin verður önnur stórsýning í febrúar.
Undirtektirnar eftir afmælissýninguna voru slíkar að við erum tvíefldar í dansi og viljum ólmar komast á sviðið aftur. Það er líka besta leiðin til að halda sér við og komast lengra ... að dansa, æfa og öðlast nógu mikla reynslu!
Febrúarsýningin verður með svipuðu sniði og afmælissýningin; fjölbreytt og skemmtileg.
Svo á keppnin að vera um mánaðamótin apríl-maí ... og þar sem að ég verð ekki dómari þessu sinni, þá hef ég ákveðið að keppa í vor (þó að ég sé ekki alveg sátt við að "keppa" í magadansi).
Ég mæli með því að taka þátt, það er verulega lífsreynslugefandi (samsuðuorð!) ... og það þarf ekki að vera tilgangurinn hjá öllum að "vinna" keppnina, það að velja sér lag, semja við það dans, og fá að sýna dansinn fyrir áhugasamri dómnefnd er ómetanlegt bara eitt og sér!
Ég er staðráðin í að standa mig betur en ég gerði síðast (2002), þar sem að ég hafði enga solo-sviðsreynslu ... það sló mig útaf laginu og ég tel að ég hljóti að geta gert betur í þetta skiptið!
Svo eru gestakennarar vænlanlegir á vorönninni, sem eiga eftir að auðga dansflóruna hjá okkur, en fyrstur kemur Fernando flamencokennari í marz, og er hans, nú þegar, beðið með eftirvæntingu!
Kristína.