Magadanskeppnin greinilega að nálgast
Ég fór í Magadanshúsið að kenna tíma fyrir Jóhönnu í gær, vegna þess að hún er svo upptekin í keppnisundirbúningnum og leikhúsvinnunni þessa dagana ... og vá hvað það var fyndið að vera þarna. Það voru allir, eða svo virtist vera, uppstrílaðir, að æfa sig eða hjálpa örðum að æfa fyrir keppnina á föstudaginn. Á meðan að Josy var að kenna venjulegan tíma í einum sal var hinn salurinn og hvert horn og rými nýtt til að æfa keppnisdansa og máta og prófa búninga.
Fyrir þá sem ekki vita það, þá er Magadanskeppnin á föstudaginn nk. í tónlistarhúsi Ýmis. Keppendur eru að standa sig mjög vel í undirbúningnum. Það er svo gaman að sjá hvað allir leggja mikið í þetta, æfa í búningum í marga daga fyrir keppni (til að venjast honum við dansinn), allir keppendur að hjálpast að, gagnrýna og hrósa hvorri annarri ... þetta er augljóslega vinalegur og vel undirbúinn hópur sem keppir í ár. Og afrakstur slíkrar vinnu hlýtur að vera flott sýning, ekki satt? Ég hélt mér til hlés og reyndi að sjá sem minnst í gærkvöldi, til að halda spennunni í hámarki fyrir föstudagskvöldið.
Magadanskeppnin hefur frá upphafi verið uppáhalds magadansuppákoman mín á ári hverju. Þar koma nemendur og sýna afrakstur sinn í magadansi. Nemendur hafa valið tónlist, samið sjálfar dans við hana, æft sig og æft undir stundina stóru. Afraksturinn er stórkostleg sýning þar sem persónulegur stíll hverrar og einnar skín í gegn, hver dans frábrugðinn þeim næsta. Konfekt fyrir magadansunnanda augað.
Ég hlakka mikið til að vera hlutlaus áhorfandi útí sal á föstudaginn og njóta sýningarinnar í botn, en þetta verður í fyrsta skipti frá upphafi sem ég er hvorki að dæma né keppa í keppninni!