Byrjuð aftur!
Jæja, í kvöld byrjaði ég aftur að æfa magadans ... eða ég fór öllu heldur á æfingu. Ég veit ekki hvað það er langt síðan ég fór síðast á æfingu, en ég veit að það eru um tæp tvö ár síðan ég æfði reglulega með elítuhópnum!
Í stuttu máli sagt hætti ég að æfa á síðustu meðgöngu, hætti að kenna meðgöngumagadans seint á meðgöngunni, byrjaði ekki að æfa aftur af ráði, hef haldið tvö námskeið á Siglufirði og kennt staka meðgöngumagadanstíma í Jógasetrinu hjá Auði Bjarna síðan.
Við Már fórum á vorsýningu Magadanshússins í Salnum og ég gjörsamlega kolféll fyrir tribal magadansinum sem elítuhópurinn sýndi með Rositsu ... vá hvað mig langaði að hoppa á næstu æfingu með þeim þá. Svo fór ég og horfði á Magadanskeppnina um þar síðustu helgi, og þá gerðist eitthvað, ég sá svo margar stelpur sem komu mér á óvart, mér fannst Hrafnhildur hafa fundið sig í dramatíkinni, Berglind fékk mig til að langa að læra mikla og flotta tækni, mér fannst Rósalind hafa bætt sig svo mikið síðan í fyrra, Fífí fékk mig til að hlæja og langa til að dansa, Jóhanna var svo töfrandi og grande ... Heiða var náttúrulega bara svöl .... mig langaði bara svo að taka þátt í þessu öllu með þeim, mig langaði að vera memm!
Í vor byrjaði ég náttúrulega að æfa karate aftur eftir langt hlé, nema hvað, ég byjaði á því að fara í hnjánum ... of mikið álag á þau þegar ég er svona þung að byrjað að æfa aftur af fullum krafti. Jæja, með aðstoð sjúkraþjálfarans míns er það mál úr sögunni ... nema hvað, nú er það spjaldhryggurinn og mjöðmin sem eru eitthvað að stríða mér. Er enn að reyna að leysa það með sjúkraþjálfaranum, en góðir hlutir gerast víst hægt! En planið er sem sagt að byrja að æfa karate aftur á fullu, með magadans "on the side" ... stefnan er sett á að ná næstu beltisgráðu í karateinu þegar ég er búin að ná mér í mjöðminni og mögulega að fara að kenna byrjendum ef ég stenst kröfur félagsins. Það er alltaf gott að hafa háleit markmið!
Fyrsta æfingin hjá mér í nýja Magadanshúsinu í Skeifunni var sem sagt í kvöld, og ómægod, hvað ég finn fyrir því að það er langt síðan ég hef verið í tíma hjá Josy ... og fyrir mjöðminni, fann mikið til í henni líka í kvöld! En það var virkilega gaman. Josy byrjaði að kenna nýjan dans sem hún stefnir á að hafa í jólasýningu hússins .. held ég amk. Veit ekki hvort ég nái honum fyllilega, þar sem að ég mun einungis ná að mæta á mánudögum til að byrja með ... við sjáum til. Ef ég næ honum, skal ég pikka hann hér inn. Ég sagði EF!
Allavegana, alltaf gaman að dansa, vona bara að sjúkraþjálfarinn minn verði ekki reiður þegar ég hitti hann á morgun og ég er orðin aum í mjöðminni aftur ... "já en það er bara svo gaman að dansa".
Kveðjur til þeirra sem ramba hingað inn af slysni og lesa röflið í mér.